154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:21]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað enn þá hægt að gera ítarlegri kannanir á viðhorfum fólks til Menntasjóðsins og hvernig kerfi við komum upp til að styðja við nemendur. Við leituðumst eftir því að fá stúdenta til að varpa ljósi á viðhorf þeirra til kerfisins og viðhorf til þess að taka lán, viðhorf til þess hvað væri að stoppa þá sem væru ekki að taka lán, viðhorf til þess að vinna með námi, sem virðist t.d. meiri vilji til en að það sé bara þörf á því vegna kerfisins, og það varpaði ágætu ljósi á stöðuna. Þar sjáum við líka mismunandi viðhorf milli kynja. En það er ekkert því til fyrirstöðu að þegar við förum að skoða stærri breytingar á námslánakerfinu, sem ég bind vonir við að sé hægt að koma með inn á næsta þing, verði líka leitað til þeirra sem hafa flosnað upp úr námi og eru ekki í námi í dag. En eins og ég ítrekaði (Forseti hringir.) í ræðunni minni er komin mjög stutt reynsla á þessi lög og það eru ekki mjög margir sem hafa nýtt sér (Forseti hringir.) lán eftir þessum lögum sem hafa svo flosnað upp úr námi.